Opinbera gögn eða halda þeim leyndum?

Þessi kafli er að sumu leyti inngangur að 6. kafla: Vernd hugmynda. Hættan á því að gögn eða hugmyndir verði gerðar opinberar er raunveruleg og hana ber að taka alvarlega um leið og uppfinning er komin á hugmyndarstig. Hins vegar er mikilvægt að átta sig á því að það að vernda hugmynd fyrir því að vera gerð opinber er ekki sambærilegt við það að vernda hugmynd fyrir brotum á réttindum.

Vernd hugmyndar fyrir því að vera gerð opinber byggir að mestu leyti á því að uppfinningamaðurinn beiti heilbrigðri skynsemi og geri eigin ráðstafanir frá þeim degi sem honum kemur uppfinningin fyrst í hug. Vernd hugmyndar fyrir brotum á réttindum byggir að mestu leyti á því að formlegum lagaákvæðum sé beitt þegar kominn er tími til, en ekki fyrr. Þess vegna koma 1. – 5. kafli á undan 6. kafla!

(Undantekning frá því er greinin „Trúnaðarupplýsingar og leyndarsamningarí 6. kafla sem gagnlegt gæti verið að lesa í samhengi við þennan kafla.)

Að meta hættuna á opinberun gagna

Því fylgir alltaf áhætta að opinbera hugmynd án þess að nægileg lagaleg vernd sé til staðar. Helstu áhættuþættirnir eru eftirfarandi:

 • að einhver kunni að notfæra sér vitneskju um hugmyndina sjálfum sér til framdráttar – oftast til skaða fyrir þann sem átti hana.
 • ef að hugmyndin er gerð opinber, getur það haft í för með sér að ekki taki því að afla sér einkaleyfis á henni síðar.

Margir uppfinningamenn með hugmynd á frumstigi standa frammi fyrir tvíþættum  vanda:

 • Yfirleitt er ekki mælt með því að sækja of snemma um einkaleyfi. Tímasetning einkaleyfisumsóknar getur haft úrslitaþýðingu – sjá greinina „Einkaleyfaferlið“ í 6. kafla.
 • Þó getur verið óhjákvæmilegt að veita ákveðnar upplýsingar ef komast á áfram með uppfinninguna.

Hvernig á þá að vernda hugmynd sem enn er á þróunarstigi?

Hættunni á opinberun má í grófum dráttum skipta í tvennt:

Opinberun til einstaklinga á lokuðum fundum
Varast má þessa tegund hættu með nokkrum grundvallarvarúðaraðgerðum, nánar skilgreindum hér á eftir.

Almenn opinberun
Hér er hættan ekki eins ljós. Sérstaklega er erfitt að varast svið eins og:

 •  fjölmiðlaumfjöllun og samkeppnir. Hvort tveggja getur komið að gagni eftir að hugmyndin hefur verið lögvernduð, en sannarlega ekki áður.
 • uppfinningar sem eru í upphafi nemendaverkefni – sérstaklega ef þess er krafist að verkefnið sé sett á sýningu eða það gefið út. Oft virðist skorta að kennarar geri sér það ljóst að hvers konar almenn birting hugverks felur lagalega í sér opinberun sem getur haft alvarlegar afleiðingar.

Hverjum er treystandi?

Það má teljast öruggt að ræða hugmyndir í smáatriðum við þá aðila sem starfa sinna vegna er bundnir trúnaði varðandi öll samskipti sín við skjólstæðinga. Þar má nefna sérfræðinga á sviði einkaleyfa og lögmenn, Evrópsku einkaleyfastofuna og starfsfólk landbundinna einkaleyfastofa. Þetta ætti einnig að gilda um opinbera starfsmenn, eins og viðskipta- eða tækniráðgjafa og stjórnendur fjármögnunaráætlana.

Í samskiptum við alla aðra – einkum og sér í lagi fyrirtæki – ætti ekki að gefa neinar  upplýsingar án þess að hafa a.m.k. (a) undirritaðan leyndarsamning og (b) frágengna réttarvernd eins og höfundarrétt eða óskráðan hönnunarrétt (nánar skilgreint í 6. kafla)

Aðferðir við miðlun upplýsinga

Varast skyldi:

 • ”leyndarþráhyggju”
 •  láta ekkert uppi er varðar hugmyndina án þess að krefjast greiðslu fyrir.

 

Slíkt neikvæð viðhorf eru ekki til framdráttar og gera alla hjálp ólíklega. Nær væri að:

 • ákveða nákvæmlega, áður en farið er útí viðræður við fyrirtæki eða einstaklinga, sem ekki eru bundin trúnaði (annaðhvort starfstengdri þagnarskyldu eða undirrituðum leyndarsamningi), hversu mikið megi láta uppi án þess að lýsa því hugvitsamlega við hugmyndina. Óhætt getur verið að útskýra í grófum dráttum á hvað sviði uppfinningin er (Dæmi: Þetta er nýstárleg músagildra), en áhættusamt er að afhjúpa hvaða nýjung felist í uppfinningunni.
 • varast of tæknilega umræðu. Því nánar sem tæknileg hlið hugmyndarinnar er rædd, því meiri hætta er á því að ljóstrað sé upp leyndarmálinu. Framsetningin ætti heldur að beinast að því að sýna fram á samkeppnislegan ávinning af uppfinningunni, t.d. að hún sé ódýrari, traustari eða auðveldari í notkun.
 • vera háttvís en ákveðin hvað það varðar að halda aftur af flæði upplýsinga. Ef viðræðuaðilar krefjast nánari upplýsinga, krefjist þá þess á móti að undirritaður sé leyndarsamningur. Ef því er hafnað er fundi slitið! Jafnvel þótt skrifað sé undir er rétt að upplýsa ekki meira en nauðsynlegt er.
 • gæta þess hvað látið er uppi við sérfræðinga á því sviði, sem uppfinningin liggur á, jafnvel þótt leyndarsamningi sé kominn á. Ekki er víst að þeir þurfi að vita nema eitt eða tvö smáatriði til að geta sér til um hvað sé einstætt við uppfinninguna.